141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[22:12]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra reyndi að réttlæta þá hugmynd sína að hækka virðisaukaskatt í ferðaþjónustu upp í 25,5% var það gert með þeim hætti að hún taldi að 25,5% reglan væri hin almenna regla og allt frávik frá því fæli í sér eins konar niðurgreiðslu. Nú er lögð til sú tillaga að virðisaukaskattsprósentan verði 14%. Ég spyr hv. þingmann: Telur hv. þingmaður að það ákvæði að vera með 14% en ekki 25,5%, eins og ætlunin var í upphafi, feli þá í sér einhvers konar niðurgreiðslu á starfsemi ferðaþjónustunnar í landinu?

Í öðru lagi sagði hv. þingmaður í ræðu sinni áðan að Samtök ferðaþjónustunnar hefðu lagt fram ákveðna valkosti við þær hugmyndir um að hækka virðisaukaskattinn og falla frá vörugjaldaafslættinum. Það eru valkostir sem ástæða er til að skoða, að mati hv. þingmanns. Telur hv. þingmaður að til greina komi (Forseti hringir.) að falla frá hugmyndinni um hækkun virðisaukaskatts, falla frá því að afnema afslættina í vörugjöldunum (Forseti hringir.) og taka upp hugmyndir Samtaka ferðaþjónustunnar?