141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[22:15]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Skildi ég hv. þingmann rétt? Er hv. þingmaður að leggja það til að fara með alla starfsemi innan ferðaþjónustunnar upp í 14% virðisaukaskatt? Líka þá starfsemi sem ekki ber neinn virðisaukaskatt í dag? Er það það sem hv. þingmaður teflir hér fram?

Í öðru lagi spurði ég um það sem mér finnst skipta mjög miklu máli, þ.e. það sem hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra sagði: Allir þeir sem eru í atvinnurekstri og borga ekki 25,5% virðisaukaskatt eins og ferðaþjónustan gerði, fá niðurgreiðslu. Ef þeir eru í 7% þrepinu er það niðurgreiðsla. Nú er lagt til að ferðaþjónustan verði í 14% þrepi, það eru ekki 25,5%, það er ekki það almenna gjald sem menn hafa talað um. Er það þá niðurgreiðsla sem nemur þessum mismun að mati hv. þingmanns? Það er ákaflega mikilvægt að sá skilningur komi fram.

Að öðru leyti vil ég segja að ég tek undir það með hv. þingmanni að það er auðvitað betri ákvörðun að leggja til 14% en 25,5%. Hv. þingmaður sagði að það hefði verið góð ákvörðun og í því felst auðvitað að upphafleg hugmynd hafi verið vanhugsuð.