141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[10:42]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við í Hreyfingunni höfum lagt fram breytingartillögu við fjárlögin þar sem 10% af vaxtagjöldum ríkissjóðs verði frestað eða þau afskrifuð með samkomulagi við eigendur ef hægt er, annars einhliða. Þessa fjármuni á að nota í 20% aukningu til sjúkrahúsanna á Ísafirði, Akureyri og í Neskaupstað og auk þess í tæplega 20% hækkun á framlögum til Landspítalans.

Í ljósi ástandsins á Landspítalanum, þar sem vafi virðist leika á því hvort öryggi sjúklinga sé tryggt, er ljóst að það verður ekki unað við óbreytt ástand. Breytingartillaga okkar gengur út á að auka verkefni á þremur sjúkrahúsum úti á landi og með því minnka álagið á Landspítalanum og auk þess að útvega honum fjármagn til að ráða fleira fólk og bæta kjör þeirra sem þar eru fyrir.

Við munum kalla þessa breytingartillögu aftur til 3. umr. og reyna að fá hana rædda í fjárlaganefnd milli 2. og 3. umr. Ég vona svo sannarlega að þingið og hv. fjárlaganefnd hafi burði til að taka á henni með þessa hagsmuni í huga.