141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[10:43]
Horfa

Róbert Marshall (U) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við þingmenn Bjartrar framtíðar höfum átt ríkulega aðkomu að þeim hluta fjárlaganna sem lýtur að fjárfestingaráætlun, sérstaklega hluta skapandi greina, og munum að sjálfsögðu styðja þann hluta.

Við hv. þm. Guðmundur Steingrímsson höfum gert fyrirvara við þann tekjuhluta fjárlagafrumvarpsins sem lýtur að hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu. Ég mun styðja frumvarpið fyrir utan þann hluta sem ég mun sitja hjá við, en við vinnum að lausn þess máls. Við teljum að hægt sé að fjármagna þennan hluta öðruvísi. Við höfum komið með hugmyndir í því skyni og átt tvo ágæta fundi með hæstv. fjármálaráðherra og munum halda áfram að vinna að lausn þess máls af ábyrgð.