141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[10:49]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Sem hluti af minni hlutanum á þingi hef ég yfirleitt verið á gula takkanum í atkvæðagreiðslu. Það verður engin breyting á því við þessa atkvæðagreiðslu nema að það eru horfur á að ég verði ríkulegar á græna takkanum vegna þess að mér finnst mikið fagnaðarefni að hér kemur inn við lok 2. umr. fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar.

Að gerð hennar hafði Björt framtíð ríkt frumkvæði. Hún gengur út á að það sé réttlætanlegt að taka arð sem myndast af eigum ríkisins og nýta annars vegar til að greiða niður skuldir og hins vegar til fjárfestinga í greinum sem geta vaxið.

Við erum að tala um að stórauka framlög til græns iðnaðar, skapandi greina, ferðaþjónustu og rannsókna og þróunar. Þetta tel ég einstaklega gott mál, fagna því mjög að það er komið hingað inn og mun að sjálfsögðu greiða því atkvæði.