141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[10:55]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er dapurlegt að hlusta á hv. stjórnarliða hreykja sér hér af einhverju sem við vitum að er ekki til. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þeir tala með þessum hætti. Við heyrðum svipaðar tölur 2010 og 2011, og hverju munaði á yfirlýsingum hv. stjórnarliða og raunveruleikanum? Það munaði 100 milljörðum.

Og nú eru hv. stjórnarliðar svo ósvífnir að þeir ákveða að láta líta út eins og Íbúðalánasjóður sé ekki til, lífeyrissjóðir og annað slíkt. Stóru upphæðirnar eru ekki til. Svo mæta menn hér og belgja sig yfir því að það séu að koma kosningar, tala um sóknarbolta [Hlátur í þingsal.] og hvað þetta heitir.

Því miður er þetta enn ein staðfesting þess að þessari ríkisstjórn hefur mistekist allt það sem hún lagði upp með. Þeim vanda sem var til staðar og er til staðar hefur bara verið frestað og skilinn eftir handa nýrri ríkisstjórn (Forseti hringir.) til að takast á við.