141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[11:04]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Strax eftir hrunið varð ljóst að atvinnuleysi mundi vaxa í landinu. Þá var sest niður með atvinnurekendum og samið um hækkun tryggingagjaldsins. Það samþykktu atvinnurekendur að taka á sig og greiða þannig fyrir atvinnuleysið gegn því að ríkisstjórnin stæði við sinn hluta og gegn því að tryggingagjaldið mundi lækka þegar atvinnuleysið færi niður.

Hvað hefur ríkisstjórnin verið að tala um undanfarnar vikur og mánuði? Hefur ekki málflutningurinn verið sá að atvinnuleysi hafi verið á niðurleið? Engu að síður er tryggingagjaldinu haldið í sömu hæðum og loforðið sem atvinnurekendum í landinu var gefið er svikið. Þetta er ekkert annað en svik við atvinnulífið í landinu. Þetta eru svik sem grafa undan trausti milli atvinnurekenda og stjórnvalda og þetta eru svik sem stjórnvöld hafa enga sanngjarna réttlætingu fært fyrir í (Forseti hringir.) þessum fjárlögum. Þetta eru svik sem eru einkennandi fyrir störf ríkisstjórnarinnar.