141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[11:06]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Hér á að hækka almenna tryggingagjaldið. Ef maður les bandorminn er það sagt vera í því skyni að það sé viðbótartekjuöflun ríkissjóðs til að standa undir lífeyristryggingum. Þessi hækkun er beinn skattur á laun í landinu fyrir fyrirtækin og þýðir að fyrirtækin geta ekki hækkað laun sem þessu nemur eða ef þau ráða ekki við það þurfa þau að hagræða sem leiðir til þess að atvinnuleysi eykst.

Aftur á móti er hægt að fagna því að tryggingagjaldið sjálft lækkar núna, gjaldið sem rennur til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Þetta er þó slæm ráðstöfun og svik við atvinnulífið í landinu sem og launþega.