141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[11:14]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Sú skattahækkun sem við erum að ræða er dæmi um allt það sem er vont við þessa ríkisstjórn. Það eru vond vinnubrögð að hækka skatt fyrirvaralaust á eina grein eins og ferðaþjónustuna eins og hér hefur verið rætt um.

Þetta er þó mjög kunnuglegt, við þekkjum þetta. Í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur alltaf verið komið fram með svo yfirgengilega vitlausar hugmyndir að allt verður vitlaust. Hvað er þá gert? Þá kemur einhver og dregur ákvörðunina til baka að hluta eins og núna. Hækka átti virðisaukaskatt á gistingu úr lægra þrepi í efra þrep, í 25,5%, en því var mótmælt. Þá kom hæstv. núverandi fjármálaráðherra eins og frelsandi engill og lækkaði það niður í 14% og þá áttu allir að vera ánægðir.

Þetta er enn þá jafnvont vegna þess að þetta skellur á greininni fyrirvaralaust og er skaðlegt. Skaðsemin hefur þegar komið fram eins og rakið hefur verið og ég segi nei við þessari skattheimtu.