141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[11:22]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér sjáum við, án þess að það hafi nokkuð verið skoðað frekar en annað í þessari tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins sem hv. stjórnarliðar ætla að samþykkja á örskotsstundu, að ríkisstjórnin ætlar meðvitað að hækka lán heimilanna í landinu. Hún veit ekki hversu mikið, hún hefur ekki hugmynd um það eins og fram kom í umræðu í þinginu í gær, en meðvitað og ákveðið ætlar hún samt að fara þá vegferð.

Hér er líka um það að ræða að verið er að svíkja skriflegt samkomulag sem var gert við atvinnulífið. Stjórnarliðar tala í fullri alvöru um mikilvægi fjárfestingar, en hvernig á að fá atvinnulíf til að blómstra? Hvernig á að fá aðila til að fjárfesta (Forseti hringir.) ef við erum hér með stjórnvöld sem svíkja öll samkomulög, þar með talið skrifleg?