141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[11:24]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Hér er verið að hækka fjölmarga skatta og gjöld á ýmsum nauðsynjavörum, getum við sagt, bensíni, olíu og heita vatninu. Sturtuskatturinn er hækkaður, sérstakur skattur af seldri raforku og flutningsjöfnunargjöld aukin. Svo koma syndaskattarnir, áfengisgjaldið og tóbaksgjaldið, allt leggst þetta á eitt með að hækka verðlag í landinu og rýra lífskjör fólksins. Lánin munu hækka og þetta mun leiða til aukinna erfiðleika hjá heimilunum í landinu. Og nægir eru þeir fyrir.

Ég lýsi furðu minni yfir því að þessar ráðstafanir séu settar fram. Ég hefði haldið að það væri hægt að nálgast þetta fremur (Forseti hringir.) á tekjuhliðinni með hagræðingu.