141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[11:27]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Þótt ég viðurkenni þörf ríkisins fyrir tekjur get ég ómögulega fallist á að Rafmagnsveitur ríkisins, Rarik, og Orkubú Vestfjarða verði krafðar um arð inn í ríkissjóð um leið og verulega er misjafnt eftir búsetu landsmanna hvað þeir verða að greiða bæði fyrir dreifikostnað rafmagns og jöfnun húshitunarkostnaðar. Það að leggja til að Rarik greiði nokkur hundruð milljónir króna af arði inn í ríkissjóð (BJJ: Er hneyksli.) meðan þessi ójöfnuður á sér stað — við höfum lofað að jafna dreifikostnað á rafmagn í landinu. Við höfum líka lofað því að jafna húshitunarkostnað á köldum svæðum þannig að mér er ómögulegt að styðja það að (Forseti hringir.) án þess að efna þessi loforð krefjum við Rarik um arð í ríkissjóð.