141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[11:35]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Vandinn við veiðigjaldið er sá að hann er tekinn af röngum stofni. Vandinn við veiðigjaldið er sá að þetta er ekki raunveruleg auðlindarenta, það er ekki verið að taka umframhagnaðinn og skattleggja hann eins og við sjáum af uppsögnum sem fréttir hafa borist af undanfarna daga þar sem útgerðaraðilar sem eru með neikvæða afkomu í rekstri sínum sitja uppi með veiðigjöld upp á milljónir, jafnvel tugi milljóna og dæmi eru um hundraða milljóna veiðigjald frá ríkisstjórninni — þrátt fyrir taprekstur.

Því var lofað þegar málið var afgreitt fyrr á þessu ári að grunnur gjaldsins yrði endurskoðaður á þessu ári en engar fréttir berast af þeirri endurskoðun. Þess vegna er haldið áfram með sama vitlausa gjaldið með sömu hörmulegu afleiðingunum og þeir sem verða fyrir barðinu á þessari stefnu eru sjómenn og allir þeir sem byggja afkomu sína á útgerðinni í landinu.