141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[11:36]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við framsóknarmenn bentum á það ítrekað í vor að ekkert væri athugavert við það að greinin greiddi hóflegt veiðigjald. Við bentum hins vegar á það, ásamt öllum þeim 90 sem gerðu athugasemdir við veiðigjaldið í umsögnum sem sendar voru inn til þingsins, og vorum sammála þeim, að sú aðferð sem hér ætti að nota væri kolröng. Hver er afleiðingin af því? Nú þegar eru þau fyrirtæki sem bent var á að þetta mundi bitna harðast á, minni fyrirtæki og meðalfyrirtæki, farin að loka og segja upp fólki. Mjög margir í greininni eru að velta fyrir sér að selja út. Afleiðingin verður, eins og meðal annars við bentum á, samþjöppun og akkúrat hið gagnstæða við það sem menn ætluðu sér.

Þetta er ekki auðlindarenta, þetta er furðuleg aðferð við að skattleggja eina af undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar. Við sögðum nei við þessari aðferð í vor og þess vegna greiði ég atkvæði (Forseti hringir.) gegn þessu núna.