141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[11:40]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Við sjáum nú þegar afleiðingarnar af þessu stórhækkaða veiðigjaldi. Í gær var 27 manns sagt upp og ég óttast að þetta séu ekki síðustu uppsagnirnar. Þetta er að gerast eins og varað var við hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum úti um allt land, það var afskrifað sem hræðsluáróður og svo sagði hæstv. forsætisráðherra í gær að þetta væri sanngjarn og hóflegur skattur.

Þetta væri kannski í lagi ef við tækjum þessa 12 milljarða sem þarna koma inn og bættum löggæsluna, heilbrigðisþjónustuna og menntakerfið, bættum grunnþjónustuna í landinu. Nei, þetta fer í einhver gæluverkefni sem er hent út rétt fyrir kosningar, ekki til að bæta grunnþjónustuna heldur til að kaupa atkvæði. (Gripið fram í.) Þetta er ekki góð skattlagning. (Gripið fram í: Hvenær …?)