141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[11:58]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég vil vekja athygli á því að allmargir þættir bíða 3. umr. Ég minni á heilbrigðisstofnanirnar á landsbyggðinni, Landspítalann og sjúkrahússtofnanir hér. Þar vantar allmikið upp á til að þar sé staðið við framlög til þess að stofnanirnar geti að minnsta kosti haldið óbreyttum rekstri frá fyrri árum og bætt þar í.

Ég minni líka á innanlandsflugið þar sem vantar fjármagn til að hægt sé að halda uppi eðlilegu og öruggu áætlunarflugi. Ég minni á löggæsluna í landinu. Ég minni líka á þjóðkirkjuna og tekjustofna hennar sem eru skertir sem þarf að taka á fyrir 3. umr. Í heildina, varðandi þennan pakka allan, bíðum við og sjáum hvað setur við 3. umr. En þarna eru allmargir kaflar sem á eftir að taka fyrir.