141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:03]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um ýmis atriði sem tengjast fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar, þar á meðal á sviði greina sem hafa mikla vaxtarmöguleika á komandi árum, skapandi greina ferðaþjónustunnar og græns hagkerfis. Reyndar á grænt hagkerfi og sú stefna sem var mótuð á þinginu erindi við allt atvinnulífið, jafnt sjávarútveg sem landbúnað, ferðaþjónustu og orkugeira, iðnað, hugverkageirann og menningarlífið.

Ég vek athygli á því að allar tillögur um fjárfestingar í grænu hagkerfi í þessu fjárlagafrumvarpi byggja á stefnu Alþingis sem fulltrúar allra þingflokka tóku þátt í að móta á árunum 2010–2011 og sem þingmenn í öllum flokkum samþykktu hér, í þessum sal, í mars sl. 43:0. Hér er verið að tryggja að þær tillögur sem þá voru lagðar fram séu ekki einungis falleg orð á blaði, heldur að þessum orðum fylgi athafnir. Við tryggjum með þessari atkvæðagreiðslu á fjárlögum þessa árs að raunveruleg verðmæti og vinna verði til í þessu landi á sama tíma og við stöndum vörð um íslenska náttúru.