141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:04]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér greiðum við atkvæði um fjölmörg mikilvæg fjárfestingarverkefni í innviðum samfélagsins. Það mætti nefna háskólamálefni, óskipt stórfé til framhaldsskóla, 800 milljónir í nýja ferju milli lands og Eyja og í Landeyjahöfn, nýframkvæmdir í fangelsismálum á Hólmsheiði og Litla-Hrauni og fjölmargt annað mætti nefna.

Það er ástæða til að geta þess líka að nokkur atriði bíða 3. umr. eins og nefnt var hérna áðan og kom fram við 2. umr. fjárlaga. Eitt af þeim er mjög brýnt velferðar- og samfélagslegt verkefni sem lýtur að löggæslumálum. Það kom fram við 2. umr. að það er brýnt að ná lendingu í því að til löggæslumálanna gangi óskiptur pottur svo halda megi í horfinu og koma í veg fyrir uppsagnir afar fámennra lögregluliða úti á landsbyggðinni.