141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:07]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér erum við að fjalla um 150 tillögur og skipta liði í þessum tillögum og ég vil byrja á að fagna því að hv. fjárlaganefnd og hv. þm. Björn Valur Gíslason skuli kalla til baka tvo liði sem fengu einna mesta gagnrýni við 2. umr.

Ég bind líka vonir við að meiri hlutinn skoði það í fjárlaganefnd að bregðast við þeim augljósu vandamálum sem blasa við okkur sums staðar. Kannski er þar helst að nefna tvennt, annars vegar löggæsluna og hins vegar það sem snýr að heilbrigðisstofnunum. Það er ekki boðlegt að hv. stjórnarliðar fagni hér þeim árangri sem náðst hefur og björtum tímum fram undan þegar við stöndum frammi fyrir þeim veruleika að ástandið á Heilbrigðisstofnun Vesturlands er slíkt að það er verið að skera niður nokkra tugi eða hundruð þúsunda með því að loka heilsugæslustöðinni í Snæfellsbæ aðra hverja helgi. Ég hef miklar væntingar til þess að þetta verði skoðað milli 2. og 3. umr.