141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:08]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Þeir tveir liðir sem hér voru kallaðir til 3. umr. áðan voru ekki kallaðir aftur vegna gagnrýni sem komið hefur fram á fjárfestinguna eða framkvæmdirnar sem slíkar, heldur kom skýrt fram í orðum hv. formanns fjárlaganefndar að það væri vegna stöðu undirbúnings þessara framkvæmda sem nauðsynlegt er talið að fara betur yfir og horfa þá til dreifingar á fjárliðunum. (Gripið fram í: … gagnrýni.)

Ég vek athygli á tveimur liðum, nr. 88 og 89 á bls. 13 þess atkvæðagreiðsluskjals sem við höfum fyrir framan okkur. Ekki aðeins verður tíma niðurskurðar í heilbrigðisþjónustunni lokið á árinu 2013 sem er mikið gleðiefni heldur eru þarna merki um að við séum komin í færi til að byggja upp. Þarna er tillaga um að auka tækjakaup á Landspítalanum og sjúkrahúsinu á Akureyri svo um munar. Þetta þýðir að Landspítalinn mun hafa um 1 milljarð kr. til tækjakaupa á næsta ári. Þá er aðeins eitt eftir (Forseti hringir.) og við tökum það vonandi við 3. umr., það að undirbúa formlega byggingu nýs Landspítala (Forseti hringir.) og taka það skref. (Gripið fram í.)