141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:11]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Af því að þetta er orðið að almennri umræðu hér leyfist mér vonandi að koma hingað upp og fagna því sérstaklega að fjölmörg framfaramál fá hér brautargengi. Það er lagt til að hrinda úr vör ýmsum mjög góðum verkefnum og ég get til dæmis sem ráðherra ferðamála sérstaklega glaðst yfir því sem er lagt til í sambandi við Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, almenna uppbyggingu og svo framkvæmdir í þjóðgörðum og á friðlýstum svæðum upp á 750 millj. kr. Fjölmargt fleira jákvætt mætti nefna til sem snýr að ferðaþjónustunni eins og uppbyggingu Kirkjubæjarstofu.

Málflutningur stjórnarandstöðunnar er afar athyglisverður. Það er rokið upp og talað niður, talað neikvætt og úr öllum hlutum, en ég hef enn ekki heyrt einn einasta stjórnarandstæðing fagna hér neinu sem fær úrlausn. (Gripið fram í: Við skulum ræða …) [Kliður í þingsal.]

Það er búið að tala mikið um ferðaþjónustuna, að það sé verið að ganga af henni dauðri. Það er skemmtilegt að á sama tíma og þessi málflutningur fer fram í þingsal Alþingis er tilkynnt um (Forseti hringir.) stærstu einstöku fjárfestingu Íslandssögunnar í þessari grein, áform um flugvélakaup Icelandair upp á 180 milljarða. (Gripið fram í: Einka…) Það fyrirtæki hefur greinilega trú á ferðaþjónustunni og tekur ekki mikið mark á nöldri stjórnarandstöðunnar. [Frammíköll í þingsal.]