141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:12]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér koma væntanlega á næsta klukkutíma til atkvæðagreiðslu ýmsar tillögur sem birst hafa í breytingartillögum. Það er alveg rétt að hér eru margar góðar tillögur, m.a. til að styrkja innviði eins og ný Vestmannaeyjaferja. Áður voru Norðfjarðargöng komin inn. Hér er komið inn á 1 milljarð til tækjakaupa á spítölum. Hér kemur líka fram, virðulegi forseti, aukning til ráðuneyta og ýmissa stofnana upp á 1.150 milljónir. Allt er þetta gott.

Ég hlustaði á stjórnarandstöðuna tala um gæluverkefni. Er eitthvað af því sem ég nefndi gæluverkefni að mati stjórnarandstöðunnar? Ég spyr. Stjórnarandstaðan sem hefur hátt um þetta verður að segja okkur hvað eru gæluverkefni. Hvað vill hún skera niður? [Kliður í þingsal.]

Ég vil svo segja að lokum (Gripið fram í.) að það er auðvitað alveg rétt að hér á eftir að taka (Forseti hringir.) inn verkefni milli umræðna sem fjárlaganefnd er að gera eins og varðandi Alþingi og þjóðkirkjuna. Hér hefur löggæslan verið nefnd og fleira sem ég bind vonir við og hvet fjárlaganefnd til að taka til umfjöllunar á milli umræðna. (Forseti hringir.) Vonandi sjáum við lagfæringar á þessu fyrir 3. umr.

(Forseti (ÁRJ): Forseti hvetur hv. þingmenn til að virða tímamörk og þingmenn í sal til að gefa hljóð.)