141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:14]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er ástæða til að vekja athygli á því að hér er lögð til 32 millj. kr. fjárheimild vegna fjölgunar farþega sem fara um Keflavíkurflugvöll þar sem farþegum hefur fjölgað afar mikið frá árinu 2009. Vegna mannfæðar hefur síðustu árin verið erfitt að manna landamæravörslu á vellinum og fyrir liggur að lögreglan mun ekki geta annað auknum umsvifum nema verulega verði fjölgað í flugstöðvardeild embættisins. Hérna er verið að tryggja að embættið geti brugðist við þessu. Það er mikið ánægjuefni og var um þetta fjallað bæði í allsherjar- og menntamálanefnd og fjárlaganefnd þar sem ég á sæti.

Annað sem ég vildi vekja athygli á og er mikið ánægjuefni er að hér er lögð til hækkun til Íslenskrar ættleiðingar, úr 9 milljónum í 34 milljónir, þannig að félagið geti sinnt því mikilvæga stjórnsýslulega hlutverki sem því er ætlað. Þetta er mjög ánægjulegt og þarna fellur starfsemi þessa mikilvæga félags í eðlilegan og jákvæðan farveg.