141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:15]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég fór á ágætan fyrirlestur á dögunum þar sem mjög sterk rök voru færð fyrir þeirri staðhæfingu að hvað varðar hlutdeild ýmissa skapandi greina eins og hönnunar í efnahagslífinu værum við Íslendingar á sama stað og Danir voru 1916. Við erum mjög aftarlega á merinni þegar kemur að því að styðja markvisst við ýmsa vaxtarbrodda í efnahagslífinu, skapandi greinar, fyrirtæki í grænum iðnaði sem ég held að verði sívaxandi vaxtarbroddur á Íslandi og í ferðaþjónustu og í rannsóknum og þróun.

Undir þessum lið í atkvæðagreiðslunni er stigið mjög mikilvægt skref, eins og til dæmis varðandi skapandi greinar. Ég vek athygli á liðum 35 og 36. Það eru tíðindi í mínum huga eftir að við höfum búið við langvarandi svelti hvað varðar stuðning við þessa vaxtarbrodda í íslensku samfélagi hversu miklar efasemdir eru um þessa stefnu og hversu (Forseti hringir.) mikilli andstöðu þetta mætir í raun og veru í þingsal. Það eru tíðindi.