141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:35]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég hef miklar efasemdir um forgangsröðun hér aftur þegar verið er að velja sér verkefni sem á að láta mikið fjármagn í. Hér mæra menn kvikmyndaiðnaðinn á Íslandi og tala um þá miklu grósku sem í honum er um þessar stundir. Við heyrum fréttir af því að hér sé allt yfirfullt af erlendum aðilum sem skapa gríðarmikla atvinnu og tekjur.

Af hverju þarf að styrkja iðnað sem gengur svona vel? Hvað mun það þýða ef við förum að setja aukafjármagn inn í grein sem gengur þegar svona vel? (Gripið fram í.) Er ekki betra að horfa til grunnþátta í samfélaginu? Er ekki betra að horfa til heilbrigðisþjónustu, löggæslu og þeirra þátta sem við fjársveltum? Er það ekki skynsamlegra, virðulegi forseti?

Ég sé að þetta fer fyrir brjóstið á mörgum sem vilja kalla sig fylgismenn þessarar norrænu velferðarstjórnar (Forseti hringir.) sem hér sér ástæðu til að styrkja greinar sem ganga mjög vel, (Forseti hringir.) blómstra í samfélagi okkar en sjá ekki ástæðu til að standa að baki öflugu heilbrigðiskerfi, menntakerfi og löggæslu í landinu. (ÞrB: … menningin … apaköttur.)