141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:37]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Athugasemd mín á við bæði um liðinn sem við greiddum atkvæði um áðan, sem sneri að eflingu Kvikmyndasjóðs, og þennan lið sem snýr að eflingu ýmissa sjóða á sviði skapandi greina. Ég tel að þetta sé mikill vaxtarbroddur eins og ég sagði áðan og af því að þau orð féllu að það væri sannað að kvikmyndagerðin skilaði ábata fyrir samfélagið, sem rétt má telja, má líka nefna að bent hefur verið á hin hagrænu áhrif annarra skapandi greina. Þar sjáum við mikla möguleika fram undan og ég nefni tónlist og hönnun þannig að ég tel að þarna sé sett fram samhangandi stefna um eflingu atvinnugreina sem um leið er mjög samfélagslega mikilvæg. Hún byggist á menningunni sem felur í sér samfélagsleg gæði fyrir okkur öll. Þarna tel ég því tvöfaldan ávinning.