141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:47]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ferðasjóður Íþróttasambands Íslands er gríðarlega mikilvægur þannig að börn sem stunda íþróttir úti á landi geti keppt á jafnréttisgrundvelli við jafnaldra sína í Reykjavík.

Ferðasjóðurinn hefur lengi verið baráttumál framsóknarmanna og ef ég man rétt lagði hv. þm. Hjálmar Árnason fyrstur fram þingsályktunartillögu um að hann yrði settur á stofn. Nú er verið að auka við sjóðinn, sem ég tel vera mjög jákvætt skref, en ég vil samt benda á að í rauninni er verið að uppfylla samning sem gerður var um að sjóðurinn yrði um 70 millj. kr. á þessu ári. Við þurfum að gera enn betur á komandi árum þannig að sómi sé að til að gera börnum víðs vegar um landið kleift að stunda íþróttir.