141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:48]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil spara þingheimi tímann með því að koma upp undir þessum lið. Ég ætla að tala hér um a-, b-, c-, d- og e-liði og vil vekja athygli á forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Við vorum að samþykkja 36. lið áðan þar sem ríkisstjórnin, meiri hlutinn, setur um 250 millj. kr. í listageirann. Margt af því er jákvætt, ef menn hafa fjármuni til þess er það mjög gott og fjárfesting fyrir framtíðina og allt það. En í íþróttageiranum er 45–50 millj. kr. bætt við. (Gripið fram í.) Sjáið þið forgangsröðun ríkisstjórnarinnar? Hver ætlar að halda því fram að íþróttamenn, bæði í unglingastarfi og almenningsstarfi Ungmennafélags Íslands, ÍSÍ og allra sérsambandanna, sé ekki í það minnsta jafnmikilvægir? Hver ætlar að halda því fram að afreksmenn Íslands í íþróttum (Gripið fram í.) dragi ekki að starfsemi erlendra aðila og sé ekki auglýsing fyrir Ísland? Hver ætlar að halda því fram að íþróttastarfið sé ekki í það minnsta jafnmikilvægt og listageirinn? En forgangsröðunin er augljós, 250 millj. á móti 50 millj., frú forseti.

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður hv. þingmann um að beina orðum sínum að forseta en ekki að þingmönnum.)