141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:04]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Það er óhætt að fullyrða að umsókn um aðild að Evrópusambandinu er eitt brýnasta og mesta hagsmunamál þjóðarinnar í bráð og lengd. Vegna tafa sem orðið hafa á aðildarferlinu myndaðist afgangur af fjárheimildum og er þess vegna gert ráð fyrir að 50 millj. kr. færist yfir á milli ára. Það er mikið kappsmál öllum þeim sem telja það brýnt að ferlinu ljúki sem fyrst og með sem bestri niðurstöðu fyrir land og þjóð, að hraða ferlinu eins og kostur er.

Þess vegna er mikilvægt að fjárheimildin sé flutt á milli ára þar sem hún var ekki nýtt á liðnu fjárlagaári vegna tafa sem urðu á aðildarferlinu. Hér er lagt til að þessir fjármunir færist yfir á árið 2013. Um er að ræða kostnað vegna samninganefnda og sérfræðiþjónustu o.fl. og er mjög mikilvægt að það gerist til að hægt sé að ljúka þessu gífurlega mikla hagsmunamáli okkar Íslendinga.