141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:14]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við greiðum atkvæði um aukin framlög til löggæslunnar. Það eru afar lágar tölur sem við greiðum atkvæði um, nokkrir tugir milljóna, og ég treysti á að Alþingi komi með pott upp á upp undir 400 millj. fyrir 3. umr. til löggæslunnar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Búið er að skera niður um 2,8 milljarða að núvirði frá hruni og nú er komið að endimörkum. Ef ekki verður sett meira fjármagn þar inn mun löggæslan hrynja, það fullyrði ég, sérstaklega á landsbyggðinni og það gengur ekki. Það verður að setja aukið fjármagn inn til löggæslunnar og ég furða mig aðeins á því að hæstv. fjármálaráðherra skuli ekki spila sig aðeins inn í umræðuna. Aðrir hæstv. ráðherrar hafa tekið þátt í henni með alla vega fimm atkvæðaskýringum þannig að ég vona að hæstv. fjármálaráðherra komi nú aðeins út úr skoti sínu og segi eitthvað í umræðunni að lokum, m.a. varðandi löggæsluna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)