141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:19]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Við greiðum nú atkvæði um fjölmörg brýn og mikilvæg umbótafjárfestingarverkefni, m.a. á sviði samgöngumála, löggæslumála og fangelsismála. Hér er gerð tillaga um 463 millj. kr. framlag vegna smíði á nýrri Vestmannaeyjaferju á næsta ári. Þá er lagður til 1 milljarður og 65 millj. kr. vegna stofnframkvæmda í fangelsismálum og framlag til öryggismála í fangelsinu á Litla-Hrauni þannig að það geti haldið áfram sinni mikilvægu uppbyggingu. Þá eru lagðar til 266 millj. vegna hafnarframkvæmda og nauðsynlegra umbóta á Landeyjahöfn þannig að sú mikilvæga samgönguframkvæmd geti virkað sem skyldi í framtíðinni.

Um er að ræða fjölmargar jákvæðar og uppbyggilegar tillögur sem við greiðum atkvæði um og er ástæða til að fagna því sérstaklega og draga örfáa þætti þeirra fram hér.