141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:21]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég bendi á lið 75.b og að einhverju leyti 75.a. Hér kemur enn og aftur forgangsröð ríkisstjórnarinnar berlega í ljós. Við höfum tekið talsverða umræðu í þinginu núna í haust um fjarskiptamál og nauðsyn þess að allir landsmenn búi við eðlilegan aðgang að netinu.

Jafnframt er tillaga síðar í frumvarpinu um 200 millj. til Netríkisins Íslands. Mér er kunnugt um að Míla, fyrirtæki sem selt var út úr Símanum á sínum tíma, gæti með aðstoð annarra fyrirtækja sem eru á þessu neti, hugsanlega með tengingu við Farice, orðið eitt öflugt fyrirtæki. Kostnaður við tengingu við til að mynda öll lögbýli í landinu er sennilega á bilinu 4–4,5 milljarðar, sem tæki (Forseti hringir.) fimm til tíu ár að koma á. Ekki er sett ein króna í Fjarskiptasjóð til að standa undir slíkum (Forseti hringir.) framkvæmdum og væri þó nóg að setja í sjóðinn 200–300 millj. á ári til að ganga frá því verki.