141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:23]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Allar hrakspár hafa gengið eftir sem ég hef bent á síðan ríkið tók þetta einkafyrirtæki í faðm sér undir öruggri stjórn þáverandi fjármálaráðherra Steingríms J. Sigfússonar. Ég bendi á, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal kom inn á, að hér er verið að leggja fyrirtækinu til 415 millj. Gert er ráð fyrir sömu upphæð á næsta ári þannig að um er að ræða tæpan milljarð á tveimur árum. Og svo kemur fram í fjárlagafrumvarpinu að braggist ekki reksturinn getur ríkið þurft að veita enn meira fé til fyrirtækisins á komandi árum.

Þarna er í raun krani úr ríkissjóði inn í fyrirtækið vegna þess að hæstv. þáverandi ráðherra Steingrímur J. Sigfússon ákvað að taka fyrirtækið í fang ríkisins og í þokkabót að setja á það ríkisábyrgð. Ég fordæmi slík vinnubrögð.