141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:26]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Jöfnunarsjóði sveitarfélaga er ætlað það hlutverk að jafna tekjumöguleika sveitarfélaga með beinni aðkomu ríkisins. Ákveðnir tekjustofnar renna í ríkissjóð sem þeim er síðan ætlað að jafna út með þessum hætti. Ákveðinn hluti þessara tekna hefur runnið til þess að mæta fólksfækkun, tekjutapi og tekjuskerðingu og takmörkuðum tekjum, sérstaklega hjá minni sveitarfélögum úti á landi.

Nú er verið að leggja til að megnið af því fjárframlagi fari til að draga í land þau stóru sveitarfélög á suðvesturhorninu sem efnt hafa til mikilla skulda. Ég er ekkert að finna að því að sveitarfélög séu dregin að landi í þeim efnum en að mínu mati verður að koma viðbótarframlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga hingað inn fyrir 3. umr. sem ætlað verður það hlutverk (Forseti hringir.) að renna til þeirra litlu sveitarfélaga úti á landi sem orðið hafa bæði fyrir fólksfækkun og tekjuskerðingu og þurfa nauðsynlega á fjármagni að halda (Forseti hringir.) til að standa undir starfsemi sinni.