141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:33]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Ég vil líkt og aðrir vekja athygli á því að þetta eru gríðarlega háar fjárhæðir sem renna til umboðsmanns skuldara. Það eru miklar efasemdir um hversu vel gengur í því starfi að koma til móts við skuldug heimili í landinu.

Við sjáum líka af hagnaðartölum bankanna að það var svigrúm til almennra aðgerða. Þær fjárveitingar sem við sjáum núna renna til umboðsmanns skuldara og þeirra aðgerða, heimilin sem eru föst í viðjum þess völundarhúss sem umboðsmaður skuldara er og ferlið sem heimilunum er boðið upp á — við sjáum afleiðingarnar af því að þetta svigrúm var ekki nýtt í fjárlagafrumvarpinu. Milljarður í umboðsmanns skuldara. Það var svigrúm til almennra leiðréttinga þegar nýju bankarnir voru stofnaðir en þáverandi fjármálaráðherra var ekki tilbúinn til að nýta það svigrúm vegna þess að hann stóð með fjármálastofnunum frekar en fólkinu í landinu.