141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:35]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég kem hér í atkvæðaskýringu fyrir lið 88 og 89. Ég vil vekja athygli þingheims á að hér erum við að veita til 650 millj. kr. til viðbótar við það sem áður var áætlað til tækjakaupa samkvæmt stífum forgangsröðunarlista sjúkrahúsanna. Eins og ég fór yfir áðan bjuggum við við ákveðið bóluástand í valdatíð Sjálfstæðisflokksins, þar sem skattfé streymdi inn í ríkissjóð. Því fé var ekki varið til eðlilegrar endurnýjunar tækja þannig að nú þurfum við að grípa til þessara ráðstafana vegna tækja sem hefði átt að endurnýja fyrir a.m.k. fimm árum, ef ekki tíu árum. (Gripið fram í.) Ef þingstörf ganga greiðlega fyrir sig á næstunni verður jafnvel hægt að mæla fyrir heilbrigðisáætlun þar sem kveðið er á um áætlanir um tækjakaup á tveggja ára fresti (Forseti hringir.) svo að þessi sorgarsaga endurtaki sig ekki.