141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:49]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Hér er verið að veita rúmar 115 millj. kr. til nýs tollkerfis hjá tollstjóra, sem er í sjálfu sér fínt kerfi. Það vill þannig til að Alþingi Íslendinga forgangsraðaði ekki í þágu þessa kerfis þrátt fyrir beiðni þar um. Þá kom til sögunnar IPA-styrkur og ákveðið var að fara í þennan leiðangur.

Í greinargerð með tillögunni segir að á móti fjárheimild samkvæmt þessari tillögu sé gert ráð fyrir að komi óafturkræfur styrkur til íslenska ríkisins frá Evrópusambandinu sem færist á tekjuhlið og hafi verkefnið að því leyti til ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs. Þetta verkefni mun kosta ríkissjóð 320 millj. kr. jafnvel þótt til viðbótar komi styrkur frá Evrópusambandinu. Þessum 320 millj. kr. verður ekki varið í annað. Að sjálfsögðu hefur þetta áhrif á afkomu ríkissjóðs. Þetta er enn ein tilraunin til að fela (Forseti hringir.) heildaryfirsýn yfir framlög og kostnað vegna Evrópusambandsaðildarinnar.