141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:51]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Eins og hefur komið fram er þetta fjármagn ætlað til viðbótar til tollstjóra svo að hægt sé að breyta tollkerfi og það er einungis til að bregðast við kröfum Evrópusambandsins vegna þess að við erum með annað skráningarform en þar er. (Gripið fram í: … til Noregs.)

Það þarf meira til að uppfylla kröfur sambandsins. Það þarf að breyta ýmsu varðandi skatta, virðisaukaskatt og tolla. Krafa Evrópusambandsins er að það sé gert á aðlögunartímanum. Þetta er ein birtingarmynd þess hvernig á að bregðast við kröfum Evrópusambandsins vegna aðlögunarferlisins. Ég er algerlega andvígur því að þetta sé sett í forgang, fyrir utan að við höfum ekki enn þá samþykkt aðild að Evrópusambandinu og þá á ekki að breyta íslensku tollkerfi í samræmi við tollkerfi Evrópusambandsins.