141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:06]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við greiðum nú atkvæði um 500 millj. kr. viðbótarframlag til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða og hér á eftir um aukaframlög til uppbyggingar innviða friðlýstra svæða upp á 250 millj. kr. til viðbótar. Aldrei áður hefur verið lögð fram svo há upphæð til uppbyggingar ferðamannastaða, en rík ástæða er til þess vegna fjölgunar ferðamanna. Erlendum ferðamönnum hefur fjölgað jafnt og þétt undanfarin 20 ár og þó sérstaklega síðastliðin tvö ár. Fyrir 20 árum voru þeir um 60 þús. en núna rúmlega 600 þús. og 61% aukning hefur orðið á milli ára ef við lítum bara til nóvembermánaðar 2011 og 2012. Lykilaðilar eru að fara út í miklar fjárfestingar eins og fram hefur komið fyrr í dag. Með þessu framlagi sem við greiðum atkvæði um er verið að auka verðmætasköpun í ferðaþjónustu en einnig að vernda íslenska náttúru fyrir ágangi. Því fagna ég og segi já.