141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:16]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að meiri hluti fjárlaganefndar skuli taka það verkefni að sér að brjóta á bak aftur þá stefnumörkun sem hæstv. umhverfisráðherra hafði forustu um að hætta að styðja við refaveiðar í landinu. Það var öllum ljóst að þetta gat ekki haldið svona áfram. Ref hefur fjölgað gríðarlega mikið og það er farið að hafa mikil áhrif á lífríkið. Enginn vafi er á því að dýrbítum mun fjölga í vetur af ástæðum sem okkur eru öllum ljósar. Þess vegna er brýnt að bregðast við.

Ég lagði á sínum tíma fram frumvarp um að ríkið endurgreiddi sveitarfélögunum virðisaukaskatt vegna kostnaðar við eyðingu á ref og mink. Því miður hefur það ekki fengist samþykkt. Ef þetta framlag hefði ekki komið fram hefði staðan einfaldlega verið sú að ríkið hefði haft beinar tekjur af virðisaukaskatti af veiðum af ref og mink, en ekki lagt neinn pening til refaveiða. Þetta hefði með öðrum orðum verið orðinn sérstakur skattstofn sem einkanlega hefði verið innheimtur af minni, strjálbýlli og fámennari sveitarfélögum í landinu.