141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:19]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég bað um sératkvæðagreiðslu vegna þessa liðar til að sjálfstæðismenn gætu fengið tækifæri til að sýna stuðning sinn við uppbyggingu á Kirkjubæjarklaustri. Hér er um að ræða fyrsta skrefið í þriggja ára framkvæmdum þar sem m.a. á að sameina undir einu þaki gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs, starfsemi Kirkjubæjarstofu, upplýsingamiðstöð og skrifstofur Skaftárhrepps og Errósetur, listamiðstöð. Hér koma fleiri að, m.a. Háskóli Íslands og Landgræðsla ríkisins.

Þessi liður var til umræðu rétt áðan þegar hv. þm. Illugi Gunnarsson benti á að þarna væru á fimmta hundrað millj. kr. sem mætti nýta til annarra þarfa. Mér til mikilla vonbrigða sé ég að hv. þingmaður treystir sér ekki til að styðja uppbyggingu í þessu veika sveitarfélagi, Skaftárhreppi, þar sem menn hafa kallað eftir fjölgun atvinnutækifæra, en það er kannski svo að Sjálfstæðisflokkurinn horfi bara til virkjana á því svæði. (Gripið fram í.)