141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:22]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég kem hingað upp vegna þeirra liða sem snúa að uppbyggingu á ferðamannastöðum vítt og breitt um landið, ekki síst nálægt okkar helstu og mestu náttúrugersemum og er þar Vatnajökulsþjóðgarður ofarlega á listanum.

Hér sjáum við í raun og sann hvernig málum er háttað milli hægri og vinstri aflanna í landinu. Menn nefna virkjun sem mundi skapa örfá störf, en skemma þeim mun meira af landi, á móti ferðamannaþjónustu og uppbyggingu sem mundi skapa fjölda starfa og auka þekkingu á svæði sem á mjög undir högg að sækja. Það er eitt mesta framfaramál í veikum byggðum landsins að auka fjölbreytni starfa. Einn mesti háski þessara sveitarfélaga er einhæfni starfa. Þess vegna er augljóst að sú stjórn sem hér er við völd fer leið farsældar og uppbyggingar á forsendum fjölbreytni og hafnar einhæfni.