141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:23]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Byggðastofnun setti fram í skýrslu fyrr á árinu að nokkur skilgreind samdráttarsvæði, þar á meðal Skaftárhreppur, Mýrdalshreppur og Raufarhöfn, væru þannig stödd að yrði ekki tekin sérstök pólitísk ákvörðun um að skjóta nýjum stoðum undir þessi sveitarfélög mundu þau halda áfram að dragast saman og að lokum deyja út.

Fólksfækkun í Skaftárhreppi hefur til dæmis verið 25% á rúmlega 14 árum. Hér er tekin ákvörðun sem skiptir þetta sveitarfélag mjög miklu máli. Þetta er verkefni sem hefur verið forgangsraðað þar fremst og efst um langt skeið. Hér er verið að leggja til 290 millj. kr. framlag, hið fyrsta af þremur jafnháum, til byggingu þekkingarseturs á Kirkjubæjarklaustri. Það er mikið fagnaðarefni. Auðvitað snýr þessi eina ákvörðun ekki við langvarandi samdráttarskeiði og hnignun samfélagsins, en hún er svo sannarlega stórt skref í þá átt og er ástæða til að fagna því.