141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:48]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Við höfum oft í atkvæðagreiðslunni rætt um mikilvægi fjárfestinga fyrir íslenskt atvinnulíf. Þó að það kunni að hljóma framandi fyrir einhverja í þessum sal er mjög mikilvægt að stjórnvöld styðji við bakið á fjárfestingu í öðrum greinum en stóriðju sem fyrst og fremst hefur tekið til sín fjárfestingarfé frá útlöndum inn í íslenskt atvinnulíf fram að þessu. (Gripið fram í.) Þessu vill ríkisstjórn Íslands breyta með því að ríkið taki þátt í stofnun fjárfestingarsjóðs og laði til sín fjármagn bæði úr norrænum sjóðum þar sem veitt hafa verið vilyrði fyrir stuðningi í slíka græna fjárfestingarsjóði í fortíðinni og einnig frá evrópskum verkefnum sem við eigum aðild að í tengslum við aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu.

Hér er mjög mikilvæg yfirlýsing um þau fyrirheit að við ætlum að byggja upp græna atvinnustarfsemi í framtíðinni. Ég tel að þetta sé eitt af mikilvægustu ákvæðunum sem við greiðum atkvæði um. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)