141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:49]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Það er dapurlegt og lýsir alveg ótrúlegri meinbægni og þröngsýni sem sjá má á töflunni að einir sex hv. þingmenn leggist gegn því með atkvæði sínu (Gripið fram í: Sjö.) — sjö hv. þingmenn — að ríkið taki þátt í sérstakri stofnun sjóðs til eflingar græns hagkerfis í landinu. Fyrr í dag greiddu tveir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins atkvæði gegn því að leggja 280 millj. kr. í ýmis verkefni í grænu hagkerfi í samræmi við tillögu og samþykkt Alþingis frá 20 mars sl. Þetta lýsir auðvitað engu öðru en þeirri einstefnu sem þeir ágætu flokkar og sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn hefur í atvinnumálum þar sem stóriðjan glepur þeim stöðugt sýn. Því miður sjá þeir ekki út fyrir þann túngarð. Það er staðfest í þessari atkvæðagreiðslu.