141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:56]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Eins og greinin er orðuð liggur það eingöngu fyrir að vera framlag til hönnunarkostnaðar væntanlegrar byggingar. Við höfum hins vegar upplýsingar um það bæði í umræðum um frumvarpið eins og það kom fram og eins í umræðum núna fyrir þessa afgreiðslu að áætlanir manna standi til að hefja byggingu við þetta verkefni á næsta ári.

Af því tilefni vil ég minna á að þessi heimild tekur ekki til þeirrar framkvæmdar. Í annan stað liggur fyrir að við afgreiðslu þess frumvarps sem gildir um félagið um byggingu Landspítalans var beinlínis gert ráð fyrir því að áður en ákvörðun um framhald þess verks yrði tekin gæfist Alþingi færi á að leggjast yfir allar áætlanir því tengdu. Engar slíkar áætlanir hafa verið lagðar fram, í það minnsta ekki í fjárlaganefnd Alþingis, sem ég tel lágmark að gera áður en til frekari ákvarðana í þessu efni kemur.