141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

málefni Íbúðalánasjóðs.

[15:37]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu staða Íbúðalánasjóðs og rekstrargrundvöllur hans í bráð og lengd. Það má öllum vera ljóst að vandi Íbúðalánasjóðs er mikill, eins og hv. málshefjandi kom inn á, og nauðsynlegt að við tökum á honum sameiginlega og með ábyrgum aðgerðum.

Ég ætla í sjálfu sér ekki að rekja söguna þó að það sé að sumu leyti nauðsynlegt þegar fjallað er um vanda sjóðsins. Það voru gerðar miklar kerfisbreytingar árið 2004 þegar húsbréfakerfinu var varpað fyrir róða. Það má segja og það kemur fram í þeim skýrslum sem unnar hafa verið að þar sé meginrótin að vanda Íbúðalánasjóðs í dag. Þó að ég ætli ekki að fara að eyða tíma í það hér held ég að það sé nauðsynlegt að halda þessu til haga því að þetta er þörf áminning um að stjórnmálamenn verði að vanda sig þegar þeir taka ákvarðanir um breytingar á jafnveigamikilli stofnun og Íbúðalánasjóði.

Þarna var lántakendum gert mögulegt að greiða hvenær sem var upp lán hjá Íbúðalánasjóði sem var fýsilegur kostur ef betri kjör buðust annars staðar, eins og hér kom fram, þar sem vextir voru lægri. Íbúðalánasjóður gat aftur á móti ekki endurfjármagnað skuldbindingar sínar á betri kjörum og sat því uppi með vaxtamuninn og alla áhættuna. Þessi breyting var gerð í andstöðu við ráðleggingar Seðlabankans á þeim tíma sem varaði sterklega við þeim vanda sem þá blasti við. Sömuleiðis gerði stjórnarandstaðan það á þessum tíma. Það er sameiginleg ábyrgð okkar hér að gera allt til þess að lágmarka skaðann og ég fer fram á stuðning, bæði frá stjórn og stjórnarandstöðu, til að vinna úr þeim vanda sem sjóðurinn er í.

Þessi mál komu til frekari umræðu eftir að við höfðum unnið húsnæðisáætlun og komið inn með frumvarp um Íbúðalánasjóð þar sem gerðar voru breytingar á útlánum á síðasta ári. Þá var skipaður sérstakur ráðherrahópur þar sem fjármála- og efnahagsráðherra leiddi í umboði ríkisstjórnarinnar starfshóp þar sem voru fulltrúar frá forsætisráðuneyti, velferðarráðuneyti og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Sá hópur fékk IFS Greiningu til að leggja mat á stöðu sjóðsins og skila skýrslu um hana. Síðan skilaði þessi hópur inn í ríkisstjórn skilagrein sem varð til þess að við gerðum aðgerðaáætlun um með hvaða hætti skyldi brugðist við í núinu.

Eins og hv. málshefjandi kom inn á er það fyrst og fremst uppgreiðsluáhættan sem menn staldra við og þar eru verulegar upphæðir í húfi og kostar mikið ef við lendum að nýju í því sama og gerðist fyrir hrun þegar gríðarleg uppgreiðsla átti sér stað á skömmum tíma. Áhyggjurnar eru út af lækkandi vaxtastigi, auknu framboði húsnæðislána og aukinni veltu á húsnæðismarkaði þannig að þarna hafa verið ákveðnar uppgreiðslur í gangi, þó ekki meiri en svo að þær eru áætlaðar á þessu ári um 15 milljarðar.

Það kom líka fram hjá málshefjanda að útlánaáhættan, þ.e. höfuðstóll lána sem er í vanskilum hjá Íbúðalánasjóði, nemur núna um 125 milljörðum kr. Það eru um 15% af eignasafni sjóðsins og auðvitað hljótum við að hafa áhyggjur af því. Við þurfum að hjálpa skuldurum að koma skuldum sínum í skil og tryggja að þeir geti greitt af lánunum þannig að fleiri íbúðir lendi ekki í höndum Íbúðalánasjóðs.

Enn eitt vandamál sem Íbúðalánasjóður hefur átt við að etja er að töluvert mikið eignasafn hefur lent í höndum Íbúðalánasjóðs eftir þrot. Þar er stór hluti frá lögaðilum sem voru með leigufélög og gátu ekki staðið í skilum og eignirnar hafa fallið á Íbúðalánasjóð. Auðvitað er mikið frá einstaklingum líka, þarna eru yfir 2 þús. eignir og það kemur fram í IFS-skýrslunni að ef ekkert verður að gert má búast við að þær geti orðið töluvert fleiri. Full ástæða er til að hafa áhyggjur af því.

Þess vegna hefur verið lögð áhersla á það að stofna um þessar fullnustueignir sérstakt félag sem yrði í eigu ríkisins en jafnframt, sem er í framhaldi af þeirri stefnu sem við mótuðum í húsnæðismálum, yrði komið af stað leigufélagi sem til langframa yrði í eigu Íbúðalánasjóðs eða tryggir að minnsta kosti að á markaði verði öflugt leigufélag sem býður leiguíbúðir á kjörum sem eru samkeppnishæf við eignaríbúðir.

Tíminn sem hér er gefinn til að ræða þessi mál er mjög stuttur þannig að við rétt tæpum á viðfangsefninu. Ég fæ vonandi að heyra viðbrögðin á eftir og koma þá betur inn í seinni hlutanum. En síðan fáum við tækifæri til að ræða Íbúðalánasjóð við 3. umr. fjárlaga vegna þess að þar munu koma inn tillögur um að eigið fé verði aukið um 13 milljarða kr. Þá kemur líka inn í 3. umr. (Forseti hringir.) vaxtakostnaðurinn af þeirri aukningu eigin fjár. (Forseti hringir.) Ég mun koma inn á nokkra aðra þætti í seinni ræðu minni.