141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

málefni Íbúðalánasjóðs.

[15:56]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Íbúðalánasjóður hefur gegnt lykilhlutverki fyrir landsmenn og landsbyggðina sérstaklega. En saga sjóðsins í seinni tíð og frá 2004 hefur í raun verið ein sorgarsaga. Við skulum rifja upp yfirboð Framsóknarflokksins í aðdraganda alþingiskosninga 2003 um að hækka bæði hámark lánshlutfalls og viðmiðunarupphæðir húsnæðislána. Seðlabankinn varaði við þessum áformum eins og lesa má um í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið. Þar kemur fram, með leyfi forseta:

„… má líta á þetta sem ein af stærri hagstjórnarmistökum í aðdraganda falls bankanna, mistök sem gerð voru með fullri þekkingu á mögulegum afleiðingum …“

Þess vegna getur hvorki Framsóknarflokkurinn né Sjálfstæðisflokkurinn látið eins og vandi Íbúðalánasjóðs sé nýtilkominn, í tíð þessarar ríkisstjórnar. Þetta er vandi sem hefur verið að hlaðast upp. Auðvitað jókst hann við hrunið eins og allt annað sem við þekkjum. En það sem á undan er gengið breytir hins vegar engu um mikilvægi þess að hér sé rekin öflug lánastofnun til íbúðakaupa. Það er jafnréttismál og beinlínis nauðsynlegt til að halda uppi byggð í landinu.

Á Íslandi hefur verið einkaeignarstefna en svo er ekki annars staðar á Norðurlöndunum. Þar er í boði fjöldinn allur af valkostum og leiðum fyrir fólk til að koma sér þaki yfir höfuðið. Má þar nefna leigumarkað og búsetufélög af ýmsu tagi. En þar gegnir Íbúðalánasjóður lykilhlutverki í framtíðinni og hann skiptir sköpum fyrir uppbyggingu á landsbyggðinni. Þess vegna verðum við að reyna að leiðrétta þessi miklu hagstjórnarmistök Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins og vinna að því að efla aftur Íbúðalánasjóð (Forseti hringir.) svo hann gegni því hlutverki sem honum var ætlað í upphafi.