141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

málefni Íbúðalánasjóðs.

[16:00]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Herra forseti. Örstutt um söguna vegna þess að mönnum hefur orðið tíðrætt um hana hér. Samfylkingin var með ráðuneyti þessa málaflokks árin 2007, 2008, 2009, 2010, 2011 og 2012. Það er von að samfylkingarmenn vilji tala um tímann áður en þeir tóku við. (Gripið fram í: Það byrjaði þar. ) Þetta uppgreiðsluvandamál hefur legið fyrir allan þennan tíma. Það er til lausn á því. Hún felst í því að gera þá kröfu til þeirra sem taka lán hjá sjóðnum að þeir greiði uppgreiðslugjald við sérstakar aðstæður. Þannig hafa verið teknir að láni hjá sjóðnum 527 milljarðar með slíku ákvæði vegna þess að það hefur tryggt viðkomandi aðilum lægri vexti. 140 milljarðar hafa hins vegar verið lánaðir án slíks ákvæðis.

Þess vegna vaknar núna sú spurning hvers vegna Samfylkingin og ráðherrar málaflokksins hafa ekki beitt ákvæðinu sem var ætlað að sporna við uppgreiðsluvandanum. Þessu hefur ekki verið svarað. Ég kalla eftir svari við þessu: Hvers vegna er uppgreiðsluákvæðinu í lánunum ekki beitt? Hvað ætla menn að segja við þá sem hafa tekið lán hjá Íbúðalánasjóði á hærri vöxtum til að vera lausir við uppgreiðsluákvæðið og borga hærri vexti þegar ráðherrann ætlaði aldrei að beita ákvæðinu? Hvers konar framkoma er þetta við allt það fólk? Nú eru allir sammála um að uppgreiðsluvandinn er til staðar. Hvers vegna er ákvæðinu ekki beitt? Það þýðir ekkert að vísa til ársins 2004, þetta hefur legið fyrir allan tímann.

Samfylkingin og Vinstri grænir voru síður en svo á móti 90% lánum á sínum tíma og Jóhanna vildi meira að segja ganga lengra. Hún setti útlánamet árið 2008, það var sett útlánamet hjá Íbúðalánasjóði í júlí 2008, hún fór með hámarkslánin úr 18 milljónum upp í 20 og fór að miða við markaðsvirði þegar hún lækkaði lánshlutfallið niður í 80% úr 90%. Áður hafði verið miðað við brunabótamatsvirði.

Ég kalla eftir því að menn tali hér um hinn raunverulega vanda sem við stöndum frammi fyrir vegna þess að við erum með ríkisábyrgð undir (Forseti hringir.) og fjárhæðin þar að baki er allt að 200 milljarðar. Förum að tala um lausnir, hættið að (Forseti hringir.) vísa aftur til ársins 2004 og farið að horfast (Forseti hringir.) í augu við þá ábyrgð sem hvílir á þeim sem hafa rekið sjóðinn hér (Forseti hringir.) og borið pólitíska ábyrgð á honum í árafjölda.