141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[16:05]
Horfa

Erla Ósk Ásgeirsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum um ráðstafanir í ríkisfjármálum, svokallaðan bandorm. Undir hann heyra tekjuöflunaraðgerðir, kjarasamningar, verðlagsbreytingar og fleira. Í inngangi frumvarpsins er þess sérstaklega getið að þær breytingar sem gerðar hafa verið á skattkerfinu frá hruni, þ.e. á síðustu fjórum árum, hafi skilað tilætluðum árangri. Flestir skattborgarar þessa lands eru farnir að þekkja of vel breytingarnar á skattkerfinu eins og þær eru nefndar. En við þekkjum þær ekki sem breytingar, eins fallega og spennandi sem það orð hljómar, heldur sem skattahækkanir. Skattar virðast hækka í hvert skipti sem ráðherra úr vinstri stjórninni stígur í pontu. Hátt á annað hundrað skattbreytingar hafa orðið á undanförnum árum. Núverandi ríkisstjórn hefur tekist að gera skattkerfið eins ógagnsætt og mögulegt er. Það er ekki nokkur leið fyrir almenning að fylgjast með öllum þeim breytingum sem réttast væri auðvitað að kalla skattahækkanir því að það fyrirfinnast ekki margar skattalækkanir í frumvarpinu þótt einhverjar séu.

Í inngangi frumvarpsins kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Tekjuhliðin hefur því átt mikilvægan þátt í því að draga úr miklum hallarekstri ríkissjóðs í kjölfar hrunsins og þar með að skapa sterkan grundvöll undir jákvæða afkomu ríkissjóðs til framtíðar.“

Hver heldur ríkisstjórnin að hafi lagt sitt af mörkum til að leiðrétta hallarekstur ríkissjóðs? Auðvitað eru það skattgreiðendur sem hafa unnið baki brotnu með það að markmiði að bæta hag sinn. En hvað hefur orðið um þessar tekjur þeirra? Ríkissjóður hefur tekið þær til sín með margvíslegum hætti. Tekjuöflunin hefur því miður aðallega gengið út á að hækka skatta.

Það kemur fram í frumvarpinu að ríkisstjórnin teldi sig ekki geta náð jafnvægi í ríkisfjármálum nema með auknum tekjuöflunaraðgerðum eða áframhaldandi niðurskurði ríkisútgjalda. Því miður hefur lítið sést af niðurskurði ríkisútgjalda. Ríkisstjórnin má reyndar eiga það að hún hefur fækkað ríkisstofnunum þó nokkuð og ráðuneytum sem þau eiga hrós skilið fyrir, en það er reyndar ekki nóg að fækka stofnunum og ráðuneytum, það þarf að fækka starfsfólki líka. Opinberi geirinn hefur vaxið gríðarlega á síðustu árum. Við þurfum að taka okkur taki hér í þessari stofnun, vera svolítið hugrökk og minnka þennan geira. Hann er farinn að sliga almenning í landinu sem þarf að standa undir þessum síaukna vexti innan hins opinbera. Ekkert lát er á honum.

Flest íslensk fyrirtæki hafa þurft að takast á við hækkaðar álögur í formi mismunandi skatta og gjalda í boði ríkisstjórnarinnar. Þau hafa mörg hver þurft að bregðast við með uppsögnum starfsfólks. Það þekkjum við vel. Síðast í gær misstu 27 einstaklingar vinnuna í Þorlákshöfn þar sem sjávarútvegsfyrirtæki þar í bæ taldi sig ekki geta staðið undir þeim álögum sem ríkisstjórnin boðar með hækkuðu veiðigjaldi samhliða öðrum álögum.

Og hvað sjáum við hér? Hér er verið að auka álögur enn frekar. Frumvarpinu er skipt upp í fjóra þætti. Í fyrsta lagi eru sérstakar tekjuöflunaraðgerðir sem eiga að skila ríkissjóði 8,4 milljörðum kr. á næsta ári. Þar vegur almennt tryggingagjald þyngst sem á að skila ríkissjóði 2,9 milljörðum, en lagt er til að það verði hækkað um 0,3%. Með þessu er fyrirtækjum gert enn kostnaðarsamara að hafa fólk í vinnu sem á þessum tíma er mjög einkennileg forgangsröðun að mínu mati þegar við þurfum einmitt á því að halda að fyrirtæki geti bætt við sig starfsfólki.

Í öðru lagi treystir ríkisstjórnin á að fólk haldi áfram að taka út séreignarsparnaðinn sinn á komandi ári og ætlar sér 1,5 milljarða í tekjur af því. Það er ástæða til að hafa áhyggjur af því að einstaklingar velji í auknum mæli að taka út ævisparnaðinn sinn á svo skömmum tíma. Fyrir liggur að 80 milljarðar hafa á síðustu tveimur árum verið teknir út af slíkum reikningum. Það liggur líka fyrir að innstæður í bönkum hafa lækkað um 300 milljarða á sama tíma. Það gefur til kynna að hagvöxturinn sem hér er spáð sé drifinn áfram af einkaneyslu en ekki fjárfestingu eins og ég held að við vildum öll sjá. Það er verulegt áhyggjuefni.

Í þriðja lagi er hækkun virðisaukaskatts á útleigu hótel- og gistiherbergja úr 7% í 14% sem upphaflega átti að fara í efsta þrepið, 25,5%. Það var svo dregið til baka og ákveðið að búa í raun til nýtt skattþrep og flækja skattkerfið enn frekar. Þessi þrepaskipting á laun og í virðisaukaskatti vinnur gegn gagnsæju skattkerfi, en það virðist ekki vera áhyggjuefni ríkisstjórnarinnar. Það virðist vera einhver lenska að auka skattheimtu strax ef einhver merki eru á lofti um velgengni í einstaka atvinnugreinum. Mér finnst skilaboðin hjá þessari ríkisstjórn hafa verið þau að hún vilji ekki að hlutirnir vaxi um of. Ferðaþjónustan er að verða ein af undirstöðuatvinnugreinunum hér og að henni er vegið úr tveimur mismunandi áttum í þessu frumvarpi sem liggur fyrir hér.

Samkeppnishæfni á sviði ferðamála skiptir íslenska þjóð miklu máli. Við vitum að Ísland er ekki ódýr áfangastaður. Hann er dýr áfangastaður þrátt fyrir fall krónunnar, en sú skattlagning sem ríkisstjórnin boðar í þessu frumvarpi á að skila 1,1 milljarði í ríkiskassann.

Í fjórða lagi er talað um sérstakan skatt sem lagður verður á fjármálafyrirtæki og á að skila 800 milljónum.

Í fimmta lagi er sykurskatturinn eins og hann hefur verið kallaður en í honum felst hækkun á vörugjöld á matvæli með viðbættum sykri eða sætuefnum í vöru. Ég hef viljað kalla þennan skatt öðru nafni, í kjólinn fyrir jólin, (Gripið fram í.) og hann er einstakt dæmi um forræðishyggju vinstri flokkanna. Við vitum auðvitað öll að það er hugarfarið sem skiptir máli þegar kemur að neyslumynstri. Hérna er verið að gera mjög mikla tilraun til neyslustýringar sem á að skila 800 milljónum í ríkissjóð.

Samkvæmt útreikningum SVÞ munu verðtryggðar skuldir heimilanna hækka um alls 1,5 milljarða við þessa einu ráðstöfun ríkisstjórnarinnar. Það var nefnt í umræðunum áðan að kannski væri bara best að skattgreiðendur tækju sig saman, legðu í púkk og létu ríkisstjórnina fá þessar 800 milljónir í staðinn fyrir að þurfa að borga þær með hækkun á lánunum sínum upp á 1,5 milljarða.

Í sjötta lagi er dregið úr afslætti sem bílaleigur hafa notið af almennu vörugjaldi á ökutæki sem á að skila hálfum milljarði sem skerðir enn frekar tekjur ferðaþjónustufyrirtækja sem nú þegar hafa gert ráð fyrir þessum tekjum í bókum sínum. Það er ekki verið að hafa áhyggjur af því í þessu húsi að menn séu búnir að gera framtíðarplön og reki fyrirtæki sín samkvæmt þeim, heldur er ráðist strax á tekjurnar og hlutum breytt án nokkurs fyrirvara eða samráðs.

Í sjöunda lagi á að herða reglur um skattskil.

Í áttunda lagi er 20% hækkun á tóbaksgjaldi sem á að skila sér til ríkissjóðs sem 1 milljarður. Það sem er áhugavert í þessu samhengi er það sem kom fram á fundi í efnahags- og viðskiptanefnd í gærmorgun en þá var búið að meta hvaða áhrif hækkun á tóbaksgjaldinu hefði á verðtryggðar skuldir heimilanna, fjölskyldnanna. Hækkunin á tóbaksgjaldinu þýðir ein og sér 3 milljarða hækkun á verðtryggðum skuldum.

Á síðustu tveimur mínútum hef ég talið upp 4,5 milljarða í tveimur liðum af átta. Hinir sex liðirnir hafa ekki verið reiknaðir inn í þetta. Íslenskir skattgreiðendur mega búast við frekar leiðinlegum tíðindum í jólamánuðinum frá ríkisstjórninni. (Gripið fram í.) Því miður eru þetta skilaboðin sem þessi velferðarstjórn sendir íslenskum skattgreiðendum þannig að menn þurfa aldeilis að bæta við sig og vinna meira — ef það er hægt yfirleitt. Það er ekki hlaupið að því fyrir íslenska þjóð að bæta við sig vinnu til að borga hækkanir ríkisstjórnarinnar sem stendur sig svo vel og ber ábyrgð á fjárlagafrumvarpinu sem við höfum rætt í þessari viku og líka á þessum bandormi sem við ræðum í dag.

Það er annað áhyggjuefni í þessu frumvarpi, sú hugmynd sem verður hér að veruleika, gjaldtaka sem átti að vera tímabundin en hefur núna verið varanlega fest í lög, sérstakt kolefnisgjald. Ég geld varhuga við bráðabirgðasköttum og hér sjáum við skýrt dæmi um af hverju þeir eru varhugaverðir. Slíkir skattar eiga það til að hverfa aldrei og vera gerðir varanlegir eins og við sjáum hér.

Það eru enn fleiri þættir í þessu frumvarpi sem munu hafa áhrif á verðtryggðar skuldir fjölskyldna og heimila í landinu, verðlagshækkanir á krónutölusköttum og gjaldskrám sem eiga eftir að snerta fjölskyldurnar í landinu mjög mikið. Það er til dæmis hækkun á áfengisgjaldinu og hækkun á gjaldi til Ríkisútvarpsins. Ég spái því, því miður, að þetta verði ítrekað notað til að auka við tekjur ríkisins á komandi árum ef ekki verður skipt um ríkisstjórn í þessu landi.